HAUSTGRÍMA

Þessi höggmynd heitir Haustgríma. Hún er úr grágrýti sem tekið var úr grunni nýrrar byggingar Landspítalans og vinna mín að höggmyndinni stóð yfir frá júlí 2020 til febrúar 2022. Á sama tíma gengu covid-bylgjur yfir með tilheyrandi samkomutakmörkunum, sóttkvíum og öðru þess háttar. 

Þegar gengið er framhjá Haustgrímu þá virðist hún horfa á vegfarandann. Augasteinarnir fylgja honum eftir. Heiti höggmyndarinnar er sótt í Hávamál.

Verkið er í raun ekki alveg tilbúið, þó mínu verki sé lokið. Náttúran mun klára verkið með tíð og tíma með veðrun t.d. þegar ýmis gróður fer að vaxa á Haustgrímu og lita yfirborð hennar. Þá munu línur og fletir skerpast og fá á sig grænan lit og svo munu gular skellur eða doppur kannski myndast og hver veit hvað fleira.

Stærð höggmyndarinnar er 160 x 130 x 110cm og vegur 4 tonn.

74.
Nótt verður feginn
sá er nesti trúir.
Skammar eru skips rár.
Hverf er haustgríma.
Fjöld um viðrir
á fimm dögum
en meira á mánuði.

Hér má sjá myndskeið af höggmyndinni og gerð hennar fyrir utan Ásmundarsal. Nú stendur hún í garði við Freyjugötu og hægt er að virða hana fyrir sér þar. Garðurinn er beint á móti safni Einars Jónssonar og mun Haustgríma standa þar þangað til henni hefur verið fundinn varanlegur íverustaður.