Árið áður en ég hóf nám við LHÍ hjó ég út mína fyrstu höggmynd. Steininn fann ég í fjörunni og prófaði mig áfram þar til ég náði að móta hann. Eftir útskrift hélt ég áfram að höggva og með árunum hef ég byggt upp skilning minn og reynslu á steinum og höggmyndagerð. Ég hef tekið þátt í farsælu samstarfi með listamönnum, arkitektum og opinberum stofnunum og hlaut árið 2021 Hönnunarverðlaun Íslands fyrir slíkt samstarf.

Áhugi minn á höggmyndum í almannarými hefur verið til staðar frá upphafi og árið 2019 í samstarfi við Hveragerðisbæ varð til verkið ,,Þetta líður hjá” sem stendur við Varmá. Næsta stóra útilistaverkið hjó ég út í garði Ásmundarsalar þar sem ég hafði aðstöðu og er það grágrýtishöggmyndin Haustgríma.

Árið 2021 hefst samstarf við arkitektastofuna Arkþing sem nú heitir Nordic Office of Architecture og Seðlabanka Íslands um gerð lágmyndar fyrir aðalrými bankans og er rýmið nú tilbúið. Sumarið 2025 hef ég svo fengið það verkefni að vinna að höggmynd fyrir opnum tjöldum á Urðartorgi í Úlfarsárdal á vegum Listasafns Reykjavíkur.

Ég sæki ég gjarnan innblástur frá goðsögulegum pælingum um lífið og geymi Eddukvæðin í bílnum til að geta gripið í þegar ég er á ferðinni.